Fjórða sprungan opnaðist á gosstöðvunum í Geldingadölum í nótt en hana mátti fyrst sjá á vefmyndavél mbl.is. Að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, er nýja sprungan miðja vegu milli þeirra gossprungna sem opnuðust í vikunni.
Að sögn Einars urðu starfsmenn á Veðurstofunni fyrst varir við nýju sprunguna um þrjúleytið í nótt og virðist sem hraunstraumurinn úr henni sameinist því hraunflæði sem rennur í Geldingadali úr norðri. Þannig að nýja sprungan er á sama svæði og fyrri sprungurnar þrjár.
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli föstudagskvöldið 19. mars og önnur gosstöð opnaðist á hádegi á öðrum degi páska og sú þriðja á miðnætti á þriðjudag.
Líkt og kom fram á fundi vísindaráðs í vikunni er ekki hægt að útiloka að fleiri gossprungur geti opnast á næstu dögum eða vikum. Á fundinum var farið yfir GPS-mælingar og gervitunglamyndir til að meta breytingar sem hafa orðið á svæðinu eftir að nýjar sprungur opnuðust í vikunni. Merki um breytingar komu fram við nýjar gossprungur sem opnuðust annan í páskum og aðfaranótt þriðjudags. Breytingarnar eru hins vegar mjög litlar og fyrirboðar áður en sprungurnar opnast ekki greinanlegir.
„Vísbendingar eru um að á svæðinu frá sunnanverðum Geldingadölum og norðaustur fyrir gossprungurnar liggi kvika grunnt og ekki hægt að útiloka að fleiri gossprungur geti opnast á næstu dögum eða vikum. Opnun nýrrar gossprungu án sjáanlegra fyrirvara gæti valdið bráðri hættu fyrir fólk.
Svæðið sem þessi hætta nær til er talið vera þar sem kvikan náði næst yfirborði eða frá suðvesturhluta Geldingadala og í norðaustur að Litla-Hrúti,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.
Brattar og háar brúnir á hraunbreiðunum við gosstöðvarnar geta verið óstöðugar. Stór glóandi hraunstykki geta hrunið úr þeim án fyrirvara sem getur skapað mikla hættu. Eins getur kvika skotist út undan hraunbrúninni og sú kvika getur ferðast mjög hratt.
Mesta skjálftavirknin síðustu tvær vikur er norðarlega í kvikuganginum og nær að Keili. Rétt sunnan við Keili, við Litla-Hrút, mælast grunnir skjálftar og er fylgst vel með þeirri virkni. Grunnir skjálftar geta verið vísbending um að kvika sé að leita til yfirborðs. Ekki er því hægt að útiloka að kvika nái til yfirborðs norðar yfir í kvikuganginum sem nær að Keili.
„Við opnun á fleiri sprungum og auknu hraunflæði má leiða líkur að því að magn gass frá gosstöðvunum hafi aukist miðað við það sem var þegar einungis gaus í Geldingadölum. Mesta afgösunin kemur frá gígunum en mun minna frá hraunrennslinu sjálfu, en talað er um afgösun þegar gas sem veldur mengun losnar úr kvikunni út í andrúmsloftið,“ segir enn fremur á vef Veðurstofu Íslands.