Að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, eru sterkar vísbendingar um að uppruna smits meðal skólabarna megi rekja til smits á stigagangi líkt og það smit sem kom upp fyrr í marsmánuði.
Fréttin hefur verið leiðrétt þar sem raðgreiningu er lokið en í fram kom í fréttinni að henni væri ekki lokið. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.
Það er sameiginlegs snertiflatar á stigagangi. Að sögn Víðis er þetta ekki í sama húsi og fyrra smitið en um sambærilegt smit að ræða. „Það þarf oft svo lítið til,“ segir Víðir í samtali við mbl.is í morgun.
Aðeins eitt smit greindist innanlands í gær og viðkomandi var í sóttkví. Spurður út í þessar jákvæðu fréttir segir Víðir að þau séu alltaf með ákveðinn vara á sér ekki síst vegna þess að undanfarna daga hafi greinst smit utan sóttkvíar og fjölmargir farið í sóttkví út frá þeim smitum. „Við viljum því bíða og sjá til í fjóra til sjö daga áður en dregnar eru miklar ályktanir en það er sá tími sem tekur veiruna að kalla fram einkenni segir Víðir.
Sagan sýnir að 3-5% þeirra sem fara í sóttkví smitast í kjölfarið af Covid-19 þannig að það kæmi Víði ekki á óvart að hærri smittölur kæmu innanlands næstu daga.
Núgildandi sóttvarnareglur gilda til fimmtudags, 15. apríl, og spurður út í framhaldið segir Víðir að öll orkan í þessari viku hafi farið í að vinna úr þessari stöðu sem kom upp um páskana. Með dómi og nýrri reglugerð.
„Við erum að vinna úr þeim ramma sem stjórnvöld settu okkur með því og öll orkan farið í það. Ég á von á því að á morgun og mánudag verði farið að setjast yfir þau mál og framhaldið skoðað,“ segir Víðir.
Útlit er fyrir að sóttvarnahótelið við Þórunnartún fyllist í dag. Víðir segir að ný reglugerð varðandi fólk í sóttkví sé sett til þess að minnka líkurnar á að fólk smiti aðra sem hugsanlega eru í kringum það. Því er þessi lausn með sóttvarnahúsið afskaplega mikilvæg og góð,“ segir Víðir.
Skýrari kröfur eru gerðar um skilyrði fyrir heimasóttkví varðandi húsnæði og umgengnisreglur. Þeir sem ekki geta verið í heimasóttkví sem uppfyllir sett skilyrði þurfa að fara í sóttvarnahús en ekkert gjald verður tekið fyrir dvölina. Þetta er meðal efnis reglugerðar heilbrigðisráðherra sem tók gildi 9. apríl og byggist á tillögum sóttvarnalæknis. Með reglugerðinni er felld úr gildi fyrri reglugerð sem tók gildi 1. apríl og þar með ákvæði um skyldu einstaklinga af hááhættusvæðum til að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi sem héraðsdómur úrskurðaði að ekki væri fullnægjandi lagastoð fyrir.
Útlit er fyrir að sóttvarnahótelið við Þórunnartún fyllist í dag og segir Víðir að hann telji að fólk sé að átta sig á því hversu mikilvægt það er og öruggara að fara í sóttkví þar. „Ég held að fólk sé að sjá það og vilji auðvitað eins og langflestir taka þátt í þessari baráttu,“ segir hann.
Eitt smit greindist á landamærunum í gær og frá mánaðamótum hafa greinst 11 virk smit á landamærunum.
Víðir segir að það sé mjög jákvætt hversu fá smit hafi greinst á landamærunum að undanförnu. Alltaf séu fleiri sem koma hingað til lands með bólusetningarvottorð og þetta sé þróun sem þau hafi átt von á. Allir þurfa að fara í sýnatöku áður en lagt er af stað og þeir sem eru að greinast þar með smit leggi ekki af stað til landsins. Síðan er að hækka hlutfall þeirra sem ferðast sem eru bólusettir að sögn Víðis.
„Þetta þokast allt í rétta átt en við erum með ákveðna varnagla á þessu á meðan við bíðum eftir að sjá hvað kemur úr þessum smitum sem greinst hafa utan sóttkvíar að undanförnu,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.