Kostnaður við sjóflutninga frá Asíu hefur stóraukist og gæti það birst í vöruverði á Íslandi á næstunni. Björn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskip, segir stóru erlendu skipafélögin hafa dregið úr burðargetu eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst í fyrra.
Flutningakeðjan hafi haldið nokkuð vel en neyslumynstrið breyst og markaðir reynst öflugri en ætlað var þegar faraldurinn hófst.
Frá maí 2020 hafi eftirspurnin því reynst umfram burðargetuna og það haft í för með sér verðhækkanir. Þá hafi skapast mikill gámaskortur hjá stærstu skipafélögum heims og flöskuhálsar skapast í höfnum sem hafi lengt flutningstímann til mikilla muna.
Dæmi séu um að sjófraktin við að flytja 40 feta þurrgám frá meginhöfnum Asíu til Íslands hafi hækkað úr 3.500 í um 7.000 dali. Þá séu dæmi um að erlend skipafélög hafi innheimt forgangsgjald fyrir flutninga sem hleypi upp verðinu enn frekar eða í um 10.000 dali, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.