60% mæting fyrir helgi

Bólusett var með Pfizer-, AstraZeneca- og Moderna-bóluefni í síðustu viku.
Bólusett var með Pfizer-, AstraZeneca- og Moderna-bóluefni í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 60 prósent mæting var í bólusetningu heilbrigðisstarfsfólks utan stofnana við Covid-19 á föstudaginn, við fyrstu boðun. Grípa þurfti til þess að bjóða nokkrum sinnum til viðbótar í bólusetningu til að nýta bóluefni sem hafði verið blandað svo það færi ekki til spillis.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði áður bent fólki á starfsleyfisskrá, sem ekki væri í klíník, að mæta vinsamlegast ekki heldur láta fólk sem væri starfandi innan heilbrigðiskerfisins njóta forgangs.

Að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, gekk innköllun vel og var fólk fljótt að bregðast við á föstudaginn svo allt bóluefnið nýttist.

Með heilbrigðisstarfsfólki utan stofnana er meðal annars átt við sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sálfræðinga, sjúkraþjálfara og fótaaðgerðafræðina. 

Von á Pfizer sendingu á morgun 

Von er á sendingu af Pfizer-bóluefni á morgun sem bólusett verður með á þriðjudegi. Ragnheiður segir að reynt verði að klára að bólusetja hóp heilbrigðisstarfsmanna utan stofnana þá. Sendingin er um fimm þúsund skammtar. 

Áfram verður síðan haldið með aldursröð ásamt því að bólusetning fólks með undirliggjandi sjúkdóma fer að hefjast.

Ragnheiður segir að við séum nú stödd í forgangshópi númer fimm af tíu. Þá fer að styttast fyrstu sendingu frá Janssen J&J sem einungis er gefið einu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert