Tuttugu starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi. Uppsagnirnar komu í tvennu lagi, um síðustu mánaðamót og mánaðamótin þar á undan, og taka til stjórnenda, hjúkrunarfræðinga, ræstitækna og annarra starfsmanna. Á annan tug starfsmanna var sagt upp á öðrum heimilum.
María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Ræsting er nú aðkeypt, en enginn kemur í stað hinna starfsmannanna.
María segir uppsagnirnar endurspegla erfið rekstrarskilyrði heimilanna, sem rekin eru með þjónustusamningi við ríkið. Einingarverð, sem fylgir hverjum íbúa, dugi ekki til að standa undir kjarasamningsbundnum launahækkunum starfsfólks og óljóst hvernig verði með styttingu vinnuvikunnar.
Hrafnista sér fram á tuga milljóna halla á árinu þrátt fyrir hagræðingu.
Stytting vinnuviku starfsfólks í vaktavinnu tekur gildi 1. maí og reiknast Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu til að hún feli í sér töluverða hækkun á launakostnaði. „Við erum að horfa upp á hrikalegt rekstrarár og höfum gríðarlegar áhyggjur,“ segir María.
Þrátt fyrir ófáar fyrirspurnir til heilbrigðisráðherra, ráðuneytisins og Sjúkratrygginga hafa Hrafnista og fyrirtæki í velferðarþjónustu fengið litlar upplýsingar um þróun einingarverðsins og enga tryggingu fyrir því að þeim verði bættur upp aukinn launakostnaður.
Raunar hefur einingarverð ársins ekki fengist frá Sjúkratryggingum fyrr en árið er hafið. Þannig lá einingarverð ársins 2021 fyrir 8. febrúar í ár. „Það er erfiður rekstur að vita ekki hverjar tekjurnar eru og hvað við getum mannað á móti,“ segir hún.
Svör hafa iðulega verið á þá leið að beðið sé eftir útkomu svokallaðrar Gylfaskýrslu, sem ráðuneytið fékk KPMG til að skrifa um rekstur hjúkrunarheimila. Niðurstöður hennar áttu að liggja fyrir um áramót, en ekkert bólar á henni.
María bætir við að uppsagnir séu ekki það sem hjúkrunarheimilin þurfi á að halda. „Okkur vantar meira fólk í þessi störf til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til okkar,“ segir hún. Fáist aukin framlög frá ríkinu verði þau nýtt til þess, en rekstur Hrafnistu er óhagnaðardrifinn og ekki greiddur út arður af honum.