Ferðaþjónustan fékk að kenna á kórónuveirufaraldrinum í fyrra. Lítið var um ferðalög milli landa og hótel og veitingastaðir fengu aðeins brot af venjulegum gestafjölda.
Nýleg samantekt hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, sýnir að mikill samdráttur varð sömuleiðis í fjölda gistinátta á tjaldstæðum síðasta sumar.
Eins og sjá má á grafinu hér til hliðar varð mikill samdráttur í flestum Evrópulöndum og heilt yfir var Ísland meðal þeirra landa þar sem mestur samdráttur varð.
Þegar hins vegar er einungis horft til innlendra ferðamanna varð einna mest fjölgun gistinátta á milli ára hér á landi í fyrra. Alls nam fjölgun gistinátta innlendra ferðamanna á tjaldstæðum 32% í fyrra borið saman við árið áður.