Fólk í góðu formi örmagnast á leiðinni

Mikil gasmengun hefur verið á gossvæðinu í Geldingadölum og þar …
Mikil gasmengun hefur verið á gossvæðinu í Geldingadölum og þar í kring. Einkenni gaseitrunar geta verið lúmsk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkrir voru mættir fyrir klukkan sjö í morgun á gosstöðvarnar í Geldingadölum að sögn Bjarneyjar Annelsdóttur, yfirlögregluþjóns á Suðurnesjum. Hún segir rýmingu í gærkvöldi hafa gengið vel og engan hafa verið á gossvæðinu í nótt. 

„Aðallega höfum við áhyggjur af gasmengun á svæðinu,“ segir Bjarney. „Það sem við óttumst er þessi leyndi hluti gaseitrunar. Það sem er að gerast er að fólk er að fá einkenni sem við vitum ekki af fyrr en eftir á.“ 

„Fólk í mjög góðu formi er að örmagnast á leiðinni til baka. Þetta er ekki þung leið að ganga. Margir fá slen eða þreytu og upplifa sig lasna á bakaleiðinni án þess að átta sig á því hvað það er,“ segir Bjarney. 

Kallað eftir leiðbeiningum frá landlækni

Bjarney segir að kallað hafi verið eftir því við landlæknisembættið að skýra betur hvaða einkennum gaseitrunar fólk eigi að horfa eftir. Hún segir lögregluþjóna ítrekað vara við gasmengun en fólk virðist ekki taka það alvarlega. 

„Ég skil mjög vel áhugann á að fara og skoða þetta. En það er spurning hversu lengi fólk þarf að dvelja þarna í þessum aðstæðum,“ segir Bjarney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka