Ganga um 8 km á vakt

Sandra B. Franks.
Sandra B. Franks. Ljósmynd/Aðsend

„Sjúkraliðar ganga um átta kílómetra á einni kvöldvakt. Með því að hugsa þjónustuna upp á nýtt má nýta handtökin betur í hag þeirra sjálfra, sjúklinga og spítalans,“ segir Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, í viðtali við kynningarblað um nýjan Landspítala sem fylgdi Morgunblaðinu fyrir helgi.

Hún segir bæði óþægilegt og mikið óhagræði í löngum vegalengdum sem nú þurfi að fara innan Landspítalans. „Sjúkraliðar eru dreifðir um allar koppagrundir í núverandi húsnæði spítalans.“ Þá sé bagalegt nú í Covid að skortur hafi verið á einangrunarrýmum.

„Sjúkraliðum hefur fundist erfitt að sinna fólki í einangrun. Vinnuumhverfið er mun þyngra en það þyrfti að vera. Við bindum miklar vonir við að það lagist til muna þegar aðbúnaðurinn og fyrirkomulagið verður sniðið að þörfum bæði starfsmanna og sjúklinga.“ Sandra segir um 600 sjúkraliða starfa á Landspítala og fleiri vanta.

„Stéttin okkar er tekin að reskjast og ljóst að margir munu heltast úr lestinni á næstu tíu árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert