Undirbúa sig á Jaðri

Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, fyrir utan æfingaaðstöðu klúbbsins, Klappir, sem …
Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, fyrir utan æfingaaðstöðu klúbbsins, Klappir, sem senn verður tekin í notkun. mbl.is/Margrét Þóra

„Við átt­um satt best að segja von á meiri vilja bæj­ar­ins gagn­vart þessu móti, en kem­ur okk­ur kannski ekki al­gjör­lega á óvart því þetta er sama niðurstaða og var árið 2016 þegar síðast var haldið Íslands­mót á Jaðarsvelli,“ seg­ir Stein­dór Ragn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Golf­klúbbs Ak­ur­eyr­ar, GA. Íslands­mótið í golfi verður haldið á Jaðarsvelli á kom­andi sumri, dag­ana 5. til 8. ág­úst. Þátt­tak­end­ur, kon­ur og karl­ar, verða um 150 tals­ins.

Golf­klúbb­ur Ak­ur­eyr­ar sótti um styrk að upp­hæð 2 millj­ón­ir króna til Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar í því skyni að gera völl­inn sem best úr garði áður en blásið yrði til Íslands­móts.

Íslands­mótið fór síðast fram á golf­vell­in­um á Jaðri fyr­ir fimm árum, árið 2016 og hafði þá ekki verið haldið slíkt mót þar frá ár­inu 2000. Fjöl­marg­ir fylgd­ust með mót­inu fyr­ir fimm árum og var m.a. bein út­send­ing í sjón­varpi frá seinni dög­um móts­ins sem ríf­lega 35 þúsund manns horfðu á.

„Við erum mjög spennt fyr­ir því að halda mótið í sum­ar og von­um svo sann­ar­lega að ekk­ert komi í veg fyr­ir það,“ seg­ir Stein­dór og vís­ar þar m.a. í kór­ónu­veirufar­ald­ur sem sett hef­ur strik í marg­an reikn­ing­inn.

„Við höf­um mik­inn metnað til að hafa um­gjörð alla sem best verður á kosið,“ bæt­ir hann við og nefn­ir að leitað hafi verið til bæj­ar­ins um styrk til að vinna að end­ur­bót­um á vell­in­um fyr­ir mótið.

Mik­il lyfti­stöng fyr­ir íþrótt­ina

End­ur­byggja þarf þrjá teiga. Þá stend­ur til að lengja þrjár braut­ir til að gera þær meira krefj­andi fyr­ir bestu kylf­ing­ana. Eins þarf að betr­um­bæta vökv­un­ar­kerfi vall­ar­ins og leggja þar raf­magn og setja upp raf­magns­kassa svo hægt sé að dreifa raf­magni víðar um völl­inn en nú er.

Horft er til þess að not­ast við raf­magnssláttuþjóna á stór­um slegn­um svæðum, m.a. vegna um­hverf­is­sjón­ar­miða, minni launa­kostnaðar og minni kostnaðar við rekst­ur véla og viðhalds. Kostnaður við fyr­ir­hugaðar fram­kvæmd­ir nem­ur um 5,5 millj­ón­um króna.

Fram kem­ur í bók­un frá frí­stundaráði Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar að það fagni því að mótið verði haldið á Ak­ur­eyri en það geti ekki orðið við er­ind­inu því ekki sé gert ráð fyr­ir slík­um styrk­veit­ing­um í fjár­hags­áætl­un. Legg­ur ráðið áherslu á að íþrótta­fé­lög sæki um styrki við gerð fjár­hags­áætl­un­ar sem fram fer að hausti.

„Auðvitað þykir okk­ur miður að bær­inn sjái sér ekki fært að styrkja okk­ur, þetta er stærsta golf­mótið sem haldið er á hverju ári og þar etja all­ir bestu kylf­ing­ar lands­ins kappi. Það er mik­il lyfti­stöng fyr­ir íþrótt­ina á Ak­ur­eyri að fá mótið í bæ­inn og er ákveðinn stimp­ill á gott starf hjá Golf­klúbbi Ak­ur­eyr­ar. Það rík­ir mik­ill metnaður í okk­ar her­búðum að bjóða gest­um upp á góða upp­lif­un. Öll aðstaða er til fyr­ir­mynd­ar og kapp er lagt á að kylf­ing­ar sem leggja leið sína á Jaðarsvöll fari með eft­ir­minni­lega upp­lif­un í fartesk­inu að leik lokn­um,“ seg­ir Stein­dór.

Aldrei fleiri hring­ir spilaðir en í fyrra

Golf­klúbbur­inn er á mik­illi upp­leið en golfiðkun á liðnu ári jókst um­tals­vert miðað við fyrri ár. Íslend­ing­ar tóku til­mæl­um yf­ir­valda og ferðuðust í rík­um mæli inn­an­lands í fyrra­sum­ar og var Ak­ur­eyri vin­sæll áfangastaður. Stein­dór seg­ir Golf­klúbb­inn vel hafa orðið þess var­an, um­ferð um völl­inn var meiri en vana­lega. Alls voru spilaðir 26.982 hring­ir á vell­in­um sem er það mesta frá ár­inu 2014, ríf­lega 5.000 hringj­um meira en þá og um 25% aukn­ing frá síðasta metári.

Völl­ur­inn var op­inn 163 daga í fyrra, en loka þurfti 1. nóv­em­ber vegna hertra sótt­varn­a­reglna. Að meðaltali voru spilaðir 166 hring­ir á dag á Jaðarsvelli en ef horft er til sum­ar­mánaðanna, júní, júlí og ág­úst voru spilaðir að meðaltal 212 hring­ir á dag, 50 fleiri á dag en var árið 2019.

Stóru mót­in á sín­um stað

Stein­dór seg­ir kom­andi sum­ar líta vel út ná­ist að halda kór­ónu­veirufar­aldri í skefj­um. Golf sé þó þannig íþrótt að það má leika án snert­ing­ar og með því að fylgja sótt­varn­a­regl­um sé hæg­ur vandi að leika golf. „Stóru mót­in okk­ar eru á sín­um stað í sum­ar, seg­ir Stein­dór og nefnd­ir m.a. að skrán­ing á miðnæt­ur­sól­ar­mótið Arctic Open 2021 fari vel af stað. Þegar hafa 27 er­lend­ir kylf­ing­ar skráð sig til leiks og á hann von á að sú tala fari vax­andi á næstu vik­um. „Er­lend­ir kylf­ing­ar voru lítið á ferðinni í fyrra­sum­ar vegna aðstæðna í sam­fé­lag­inu, en við von­um að staðan verði betri á kom­andi sumri,“ seg­ir Stein­dór að end­ingu.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert