VLFA stefnir ASÍ

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við undirbúum það núna með lögmanni félagsins að stefna Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins líka,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is.

Ástæðuna segir Vilhjálmur vera að ASÍ og SA telji það vera sitt hlutverk að semja alfarið um lífeyrismál. Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um lágmarkstryggingavernd og fleira tengt lífeyrismálum var birt í síðustu viku. Í því felast nokkrar breytingar á lögunum skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og segir Vilhjálmur að ekkert samráð hafi verið haft við stóran hluta verkalýðshreyfingarinnar heldur hafi ASÍ og SA tekið sér það vald að vera samráðsaðilar við smíðar frumvarpsins.

„Inni í öllum kjarasamningu stéttarfélaganna er samið um lífeyrismál,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir skýrt í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að stéttarfélög ráði sínum málefnum sjálf og að samningsumboðið liggi hjá stéttarfélögum en ekki ASÍ. 

„Í lögum um lífeyrissjóði er líka kveðið á um, að um iðgjöld er samið í kjarasamningum eða ráðningarsamningum. Þarna er búið að taka samningsumboðið af stéttarfélögunum og færa yfir til ASÍ og SA.“

Finnur ýmislegt að frumvarpinu 

„Þarna er verið að lögfesta lágmarksiðgjald í 15,5% og búa til nýja séreign sem heitir tilgreind séreign sem ekki er til í lögunum í dag. Lágmarksiðgjald samkvæmt lögum í dag er 12% en nú er verið að lögfesta 15,5%. Í lögunum er sem sagt gert ráð fyrir því að þessi 3,5% munur megi ekki fara í frjálsa séreign heldur verði að renna til lífeyrissjóðanna. Þú mátt ekki hafa val.“

Vilhjálmur segist algjörlega á móti þessari lögþvingun á ráðstöfun lífeyris. „Við þurfum að átta okkur á því að frjálsa séreignin er ekki með sömu skorður og þessi svokallaða tilgreinda séreign.“

Þá segir Vilhjálmur að með því að hækka þann aldur þegar byrjað er að greiða inn í lífeyrissjóði sé verið að spara atvinnulífinu tvö ár af iðgjaldsgreiðslum. „Hvers vegna í ósköpunum er ekki samið um það hvert og hvernig á að greiða þessi 11,5%, sem er mótframlag atvinnurekenda? Á bara að gefa þeim það?“ spyr Vilhjálmur.

Hann nefnir einnig að sjómenn séu undanskildir lögunum þannig að þeir eigi bara að fá 12% iðgjald. Hann segir að þannig séu útgerðinni sparaðir töluverðir fjármunir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert