Sigurinn í forvalinu kom á óvart

Hólmfríður Árnadóttir.
Hólmfríður Árnadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hólm­fríður Árna­dótt­ir, mennt­un­ar­fræðing­ur og skóla­stjóri Sandgerðisskóla, er efst á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi eftir forval flokksins sem fór fram um helgina.

„Ég er gríðarlega ánægð og þakklát fyrir stuðninginn í Suðurkjördæmi, bara virkilega,“ segir Hólmfríður í samtali við mbl.is. Hún hlakkar til að sinna þeim verkefnum sem henni verða falin.

„Þetta er virkilega spennandi. Ég er spennt fyrir kosningabaráttunni og hlakka til að takast á við það sem framu ndan er,“ segir Hólmfríður.

Hún segist þakklát þeim sem treystu henni fyrir hlutverkinu.

Þingmaður, fyrrverandi þingmaður og varaþingmaður

„Ég ætla bara að reyna að sannarlega standa mig í þessu og vera traustsins verð og sinna þeim málefnum sem standa okkur í VG næst, sem eru velferðarmálin og kvenfrelsi, jafnrétti og umhverfisvernd,“ segir Hólmfríður. 

Aðspurð segir hún niðurstöðurnar hafa komið sér á óvart.

„Það voru þarna náttúrulega þingmaður, fyrrverandi þingmaður og varaþingmaður, þannig að þetta kom mér að vissu leyti á óvart, en ég er búin að sinna þessari kosningabaráttu af heilindum og hef reynt að leggja mig fram. Þannig að já, þetta kom mér á óvart, skemmtilega á óvart.“

Úrslit forvalsins hafa vakið athygli, ekki síst fyrir þær sakir að sitjandi þingmaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, hafnaði í fjórða sæti listans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert