Andrés Magnússon
Vandræðin vegna reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um skyldudvöl í sóttkvíarhóteli, sem héraðsdómur úrskurðaði ólögmæta, hafa vakið mikla athygli, jafnvel deilur.
Þar hefur verið deilt um sjálfa aðgerðina, að allir ferðamenn frá tilteknum svæðum – þar á meðal fólk sem hvorki er smitað né grunað um að vera smitað – séu settir í sóttkví í varúðarskyni, þótt þeir hafi í önnur, betri og eigin hús að venda. Hins vegar hafa menn svo staldrað við aðferðina, hvernig það gat gerst að heilbrigðisráðherra hafi sett reglugerð, sem augljóslega átti sér ekki lagastoð.
Á hinu fyrrnefnda getur fólk haft ýmsar skoðanir, en það er hið síðarnefnda, hvernig heilbrigðisráðuneytið rataði í þessi ótrúlegu vandræði, sem sennilega er verra og vandasamara mál, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.
Þegar í aðdraganda reglugerðarsetningarinnar heyrðust andbárur, svo ætla mætti að embættismenn og lögspekingar heilbrigðisráðuneytisins hefðu gefið lögmætinu alveg sérstaklega góðan gaum.
Af þeim ástæðum óskaði Morgunblaðið eftir því við heilbrigðisráðherra að fá afhent öll gögn, sem legið hefðu til grundvallar reglugerðinni (minnisblöð, greinargerðir, lögfræðiálit), í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Eftir ítrekun kom stutt svar frá ráðuneytinu um að beiðninni væri synjað, þar sem öll slík gögn hefðu verið lögð fyrir ríkisstjórnarfund. Morgunblaðið vill ekki una því að ráðherra geti eftir geðþótta og hentugleikum falið gögn úr stjórnsýslunni með því einu að leggja þau á borð nálægt ríkisstjórnarfundi og hefur því kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.