Svifryk í borginni sennilega vegna sandfoks

Svifrykið sem liggur nú yfir höfuðborginni er líklega sambland af …
Svifrykið sem liggur nú yfir höfuðborginni er líklega sambland af mengun sem stafar af bílaumferð og sandfoki að austan. mbl.is/Árni Sæberg

Mælar Umhverfisstofnunar hafa sýnt gríðarlega aukningu á svifryksmengun frá því um klukkan 15 í dag. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa eflaust orðið varir við mengunina – grábrún slikja yfir himninum. 

Hér má sjá hvernig svifryksmengun yfir miðju höfuðborgarsvæðinu rauk upp …
Hér má sjá hvernig svifryksmengun yfir miðju höfuðborgarsvæðinu rauk upp um þrjúleytið í dag. Þorsteinn segir að þessi aukning sé frekar vegna sandfoks en svifryk af völdum bílaumferðar getur þó hins vegar orðið svona mikið, dæmi séu til um það. Graf/Umhverfisstofnun

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá UST, segir að svo mikil aukning á skömmum tíma sé ekki endilega vegna nagladekkja. Hann telur frekar að mengunin stafi af sandfoki, sem berst að austan miðað við veðrið eins og það hefur verið í dag. Dæmi eru um að sandur alla leið frá Landeyjum berist til höfuðborgarsvæðisins. 

Kemur frá náttúrunni

„Það fyrsta sem mér dettur í hug er að þetta sé bara svifryk af götunum,“ segir Þorsteinn við mbl.is. 

„En svona á vorin sjáum við oft eitthvað þyrlast upp, sérstaklega í þessari vindátt, eitthvað sem kemur jafnvel frá Landeyjasandi eða eitthvað slíkt. Mér sýnist þetta vera að koma þaðan mögulega.“

Já, þannig að þetta kemur bara frá náttúrunni, eða hvað?

„Já, ég er hérna á Suðurlandsbrautinni og þegar ég horfi út um gluggann þá sýnist mér þetta frekar vera það bara.“

Þorsteinn útskýrir að svifryk af völdum nagladekkja og bílaumferðar almennt komi frekar til þegar vindur er lítill, undir 2m/s, en nú sé hins vegar þokkaleg gola. Hins vegar getur, í miklum vindi, þyrlast upp svifryk af götum borgarinnar, en til þess þurfi meiri vind en nú er.

Niðurstöður rann­sóknar á svifryki á höfuðborg­ar­svæðinu voru kynntar fyrr í vetur. Þær leiddu í ljós að þar hafi nagla­dekk mest að segja af þeim þátt­um, sem hafa má áhrif á. Gatnaþvott­ur virðist hins veg­ar vera óskil­virk lausn á vand­an­um.

Þessi loftmynd var tekin árið 2007 og sýnir rykstrók sem …
Þessi loftmynd var tekin árið 2007 og sýnir rykstrók sem á uppruna sinn nærri Landeyjasandi. Þorsteinn telur að svipaður strókur liggi nú yfir höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Umhverfisstofnun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert