Eitt vinsælasta sjónvarpsefni undanfarna daga hafa verið beinar vefútsendingar frá gossvæðinu í Geldingadölum. Bæði mbl.is og Rúv hafa verið með vefmyndavélar sem streyma stemningunni hverju sinni beint heim í stofu eða í tölvuna. Á sunnudagsmorguninn fengu þeir sem fylgdust með útsendingu Rúv nokkuð aðra sýn en þeir gátu átt von á, en eldgosastreymið frá Meradölum sýndi um stundarbil meðal annars undirbúningsvinnu fyrir útsendingu Silfursins og svo vefmyndavél tæknimanns Rúv.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi verða einhverjir tæknilegir örðugleikar á útsendingunni, en það er um 9:37 í gærmorgun. Í kjölfarið koma upp villuskilaboð, en rétt eftir mínútu tvö er bein útsending úr stúdíóinu þar sem undirbúningur fyrir Silfrið er í fullum gangi. Eftir nokkrar mínútur dettur sú mynd út, en á mínútu níu virðist myndin færast á vefmyndavél hjá tæknimanni einum.
Þremur mínútum síðar fær umræddur tæknimaður símtal þar sem honum er greinilega tjáð að hann sé í beinni. „Er ég þar? Bíddu, eldgosið í beinni. Jæja, frábært. Takk,“ segir hann og ekki verður annað sagt en að viðbrögðin séu einstaklega fagmannleg hjá einhverjum sem hefur nýlega áttað sig á að vera í „falinni myndavél“ í einum vinsælasta sjónvarpsþætti landsins.
Spyr hann samstarfsmann sinn í kjölfarið hvort hann hafi vitað af þessu og hringir svo í annan starfsmann og biður um að málið verði lagað. Myndin er þar næst færð í stúdíóið á ný áður en svartur skjár kemur upp. Hins vegar er hljóðið úr myndstúdíóinu áfram inni og vefmyndavélin dettur líka inn í stutta stund áður en tæknimönnunum tekst að færa streymið aftur í rétt horf út á Reykjanesið.
Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá gosinu úr vefmyndavél mbl.is hér, en útsending Rúv frá svæðinu datt út rétt fyrir 11 í gærkvöldi.