Lögreglunni í Hafnarfirði barst tilkynning um hestaslys upp úr klukkan 18 í gær. Tvær konur höfðu verið í reiðtúr á reiðstíg þegar hestar þeirra fældust vegna hjólreiðafólks, með þeim afleiðingum að þær duttu af baki, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Ekki fengust nákvæmar upplýsingar um hvar slysið átti sér stað.
Bæði sjúkrabílar og lögregla fóru á vettvang og voru báðar konurnar fluttar með sjúkrabíl á sjúkrahús til aðhlynningar.
Önnur var með áverka á mjóbaki en hin með áverka á hægri mjöðm. Þá hafði önnur þeirra lent á kyrrstæðri bifreið þegar hún datt af baki. Lögreglan hefur ekki frekar upplýsingar um líðan kvennanna.