Sölvi Þór Bergsveinsson landfræðingur telur sig hafa náð á mynd sprungunni í gærkvöldi, sem átti fáeinum klukkustundum síðar eftir að opnast og spúa ógnarheitri kviku upp á yfirborðið. Það tók hún að gera í morgun.
Uppfært: Sprungan sem sést á myndinni er raunar ekki sú sem opnaðist í morgun. Sú opnaðist í hrauni sem þegar hafði runnið. Beðist er velvirðingar á mistökunum.
Á myndinni sem Sölvi tók af sprungunni í gærkvöldi má sjá fjölda fólks sem beinlínis stendur ofan á sprungunni, inni á skilgreindu hættusvæði. Svæðið var þó ekki girt af.
Í samtali við mbl.is segir hann sprunguna hafa verið mjög augljósa og nokkurn veginn í stefnu á milli gíganna.
Sölva þótti líklegt að kvika kæmi upp úr þessari sprungu og það var þess vegna sem hann tók myndina. Auk þess vakti athygli hans hve margir voru í kringum sprunguna.
Hann var þó að eigin sögn ekki alveg hundrað prósent viss um að þarna hefði gosopið myndast í morgun, en sendi myndina á jarðvísindahóp háskólans á Facebook og þau voru að sögn Sölva ánægð að fá myndina. Kenning hans um að þetta væri sprungan sem opnaðist í morgun hefur víðar hlotið meðbyr.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Sölvi fór að gosstöðvunum en þangað hefur hann nú farið fimm sinnum enda mikill áhugamaður um jarðvísindi.