Liðlega átta þúsund einstaklingar verða bólusettir með bóluefni frá Pfizer í þessari viku, 12.-18. apríl, samkvæmt frétt frá embætti landlæknis. Byrjað verður að bólusetja einstaklinga með undirliggjandi áhættuþætti.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun bólusetja yfir fimm þúsund manns í dag, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar. Um er að ræða heilbrigðisstarfsfólk utan stofnana og reiknaði Ragnheiður með að það tækist að bólusetja stærstan hluta þess hóps í dag.
Einnig verður byrjað að bólusetja 60 ára og eldri sem eru með áhættuþætti eins og undirliggjandi sjúkdóma. Byrjað er á þeim elstu og svo koll af kolli. Farið er eftir listum frá Embætti landlæknis sem eru teknir út úr sjúkraskrá, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.