Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, segir að niðurstaða prófkjörsins sé honum auðvitað vonbrigði en hann óski Hólmfríði Árnadóttur innilega til hamingju með glæsilegan sigur.
Kolbeinn stefndi á efsta sætið í forvali VG í Suðurkjördæmi en hafnaði í fjórða sæti. Hann tjáir sig um þetta á Facebook í morgun.
„Hólmfríður Árnadóttir sigraði með glæsibrag og ég óska henni innilega til hamingju. Hún hefur nú skýrt umboð sem oddviti sem er mjög mikilvægt og styrkir hana í störfum fyrir kjördæmið. Mikil þátttaka gefur listanum líka sterkt umboð frá félögum og kraft inn í kosningabaráttuna.
Niðurstaðan varð mér auðvitað vonbrigði, enda stefndi ég að því að leiða listann. Það er þó ljóst að félagar í Suðurkjördæmi hafa stillt upp öflugri forystusveit fyrir hreyfinguna í kjördæminu. Ég þakka öllum sem að prófkjörinu komu, öðrum frambjóðendum, kjörstjórn og ekki síst félögum, fyrir góða og drengilega baráttu.
Ég átti þess kost að fara víða, hitta fólk og kynna mér málefni. Ég hefði ekki fyrir nokkurn mun viljað missa af þessari lífsreynslu. Ég tók áhættu þegar ég ákvað að taka þátt í forvalinu í Suðurkjördæmi. Fá framboð voru komin fram og ég taldi rétt að leggja mín lóð á vogarskálarnar. Óhætt er að segja að forvalið hafi hleypt miklu lífi í starfsemina og vakið athygli á VG í kjördæminu og á þeim frábæra lista sem forvalið skilaði.
Vinstri hreyfingin – grænt framboð er miklu stærri en nokkur einstaklingur. Ég lagði mig fram eins og ég best gat og mun halda áfram að leggja mig fram á þingi á næstunni, berjast fyrir betra samfélagi og koma mikilvægum málum í gegn. Ég sest yfir mín mál og hver sem framtíðin verður þá vitna ég í sjálfan mig vitna í Hreim: Lífið er yndislegt, sjáðu, það er rétt að byrja hér,“ skrifar Kolbeinn.