Kærunefnd útlendingamála féllst síðastliðinn föstudag á endurupptöku máls hins nígeríska Uhunoma Osayomore, en staðfesti eftir sem áður eldri ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þetta kemur fram á vef Kjarnans sem ræddi við Magnús D. Norðdahl, lögmann Uhunoma.
Haft er eftir Magnúsi, að afstaða yfirvalda í málinu sé óbreytt, en sömuleiðis að málinu sé ekki lokið, þar sem krafist verði ógildingar á úrskurði kærunefndar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Magnús segist telja úrskurðinn rangan og bætir við að það muni reyna á efnisatriði þessarar nýju niðurstöðu kærunefndarinnar þegar málið fari fyrir héraðsdóm.
Þá kemur fram, að kærunefnd útlendingamála hafi að sögn Magnúsar afgreitt tvær endurupptökubeiðnir sem sendar höfðu verið inn fyrir hönd Uhunoma með niðurstöðu sinni á föstudag. Úrskurður kærunefndarinnar frá því á föstudag hefur ekki verið birtur opinberlega.