Óraunsæ rómantík borgarstjóra

Runólfur Ólafsson, formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson, formaður FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

„Það vantar inn í alla þessa nálgun hvaða áhrif þetta hefði á líf borgara, á kostnað fyrirtækja til dæmis vegna dráttar á þjónustu og samverustundir fjölskyldna ef það ætti að fara að draga allan umferðarhraða í borginni niður í 30 kílómetra á klukkustund,“ segir Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í samtali við mbl.is.

í vikulegum pistli sínum, sem birtist á föstudaginn, sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, að lækkun hraða innan borgarmarkanna gæti skapað allt að 40% samdrátt í magni svifryks ef keyrt yrði á 30 kílómetra hraða í stað 50.

Umferð um Kringlumýrarbraut.
Umferð um Kringlumýrarbraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Runólfur segir að þrífa þurfi götur borgarinnar mikið betur og sparað hafi verið í götuþrifum þrátt fyrir mildan vetur. „Frágangur vinnusvæða í borgarlandinu er til háborinnar skammar miðað við framkvæmdir í miðju borgarumhverfi. Þar er mikill malarburður sem berst upp á götur í borgarlandinu,“ segir Runólfur. 

Hann segir hvorki áhuga né vilja til staðar hjá borginni til að grípa til viðeigandi ráðstafana eins og gert er í nágrannalöndum okkar þar sem dregið er úr svifryki sem myndar eins konar setlög á götum borgarinnar. „Auðvitað þyrla sérstaklega stóru bílarnir þessu ryki upp. Það sest síðan bara aftur á göturnar og svo tekur bara næsti bíll við.“

Hann segir hugmyndirnar sem nú eru viðraðar um lækkun umferðarhraða vera óraunsæja rómantík „enda hefur þetta aldrei verið borið undir borgarana. Það væri eðlilegt að bera þetta undir kosningar svo fólk hefði val.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert