Viðkvæmir geta fundið fyrir gasmengun á morgun

Fleiri gígar hafa opnast í dag.
Fleiri gígar hafa opnast í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veður­stofa Íslands spá­ir því að á morg­un sé lík­legt að gasmeng­un­ar verði vart á höfuðborg­ar­svæðinu. Brenni­steins­díoxíð úr eld­gos­inu í Geld­inga­döl­um mun að öll­um lík­ind­um svífa í átt að byggð miðað við veður­skil­yrði.

Brenni­steins­díoxíð er skaðlegt mönn­um í miklu magni en þó er ekki gert ráð fyr­ir að þess verði vart nema í litlu magni á morg­un. Þeir sem eru viðkvæm­ir, ung börn, ast­ma­sjúk­ling­ar og aðrir sem viðkvæm­ir eru í önd­un­ar­fær­um, geta þó fundið ein­kenni vegna brenni­steins­díoxíðs á morg­un.

350 míkró­grömm er viðmiðið

Helgi Guðjóns­son hjá Heil­brigðis­eft­ir­liti Reykja­vík­ur seg­ir við Morg­un­blaðið að slíkt ætti þó ekki ger­ast, nema ef magn brenni­steins­díoxíðs fer yfir 350 míkró­grömm á rúm­metra. Fylgj­ast má með mæl­ing­um gass á vef Um­hverf­is­stofn­un­ar.

„Ef það fer upp fyr­ir 350 míkró­grömm á rúm­metra þá gæti gerst að ein­hverj­ir sem viðkæm­ir eru finni fyr­ir ein­kenn­um. Það væri þá helst ert­ing í önd­un­ar­fær­um,“ seg­ir Helgi. Hann bæt­ir við að brenni­steins­díoxíð komi yf­ir­leitt frá eld­gos­um en þó geti gass­ins verið vart í þétt­býli vegna um­ferðar bíla. 

Á vef Um­hverf­is­stofn­un­ar má sjá töflu þar sem hættu­stig brenni­steins­díoxíðmeng­un­ar er skil­greint, hvaða ein­kenni geta komið upp hjá þeim sem eru viðkvæm­ast­ir og hvernig fyr­ir­byggja má að þau ein­kenni komi upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert