Veðurstofa Íslands spáir því að á morgun sé líklegt að gasmengunar verði vart á höfuðborgarsvæðinu. Brennisteinsdíoxíð úr eldgosinu í Geldingadölum mun að öllum líkindum svífa í átt að byggð miðað við veðurskilyrði.
Brennisteinsdíoxíð er skaðlegt mönnum í miklu magni en þó er ekki gert ráð fyrir að þess verði vart nema í litlu magni á morgun. Þeir sem eru viðkvæmir, ung börn, astmasjúklingar og aðrir sem viðkvæmir eru í öndunarfærum, geta þó fundið einkenni vegna brennisteinsdíoxíðs á morgun.
Helgi Guðjónsson hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur segir við Morgunblaðið að slíkt ætti þó ekki gerast, nema ef magn brennisteinsdíoxíðs fer yfir 350 míkrógrömm á rúmmetra. Fylgjast má með mælingum gass á vef Umhverfisstofnunar.
„Ef það fer upp fyrir 350 míkrógrömm á rúmmetra þá gæti gerst að einhverjir sem viðkæmir eru finni fyrir einkennum. Það væri þá helst erting í öndunarfærum,“ segir Helgi. Hann bætir við að brennisteinsdíoxíð komi yfirleitt frá eldgosum en þó geti gassins verið vart í þéttbýli vegna umferðar bíla.
Á vef Umhverfisstofnunar má sjá töflu þar sem hættustig brennisteinsdíoxíðmengunar er skilgreint, hvaða einkenni geta komið upp hjá þeim sem eru viðkvæmastir og hvernig fyrirbyggja má að þau einkenni komi upp.