Aukin spenna í framboðsmálum Vinstri grænna

Úrslitin í forvali Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi ber ekki að skilja sem stór pólitísk skilaboð til forystu flokksins, heldur fremur að þar hafi heimamenn verið teknir fram yfir aðvífandi frambjóðendur úr bænum, burtséð frá því hvert þeir kunni að rekja uppruna sinn.

Þetta er meðal þess, sem kemur fram í Þjóðmálunum í dag, þætti á Dagmálum, sem er opinn áskrifendum Morgunblaðsins, en þar ræddi Andrés Magnússon við þá Friðjón R. Friðjónsson og Stefán Pálsson, valinkunna stjórnmálaskýrendur frá hægri og vinstri.

Í forvalinu vakti athygli að Kolbeinn Ó. Proppé, þingmaður Suður-Reykjavíkur sem sóttist eftir oddvitasætinu í Suðurkjördæmi, hlaut ekki brautargengi, en Róbert Marshall, fjölmiðlafulltrúi Katrínar Jakobsdóttur forsætiráðherra, komst ekki á blað. Í efsta sæti var kjörin Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri og formaður svæðisfélags VG á Suðurnesjum.

Stefán bendir á að nýir oddvitar í bæði Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi séu engir andstæðingar ríkisstjórnarsamstarfsins, líkt og sumir andstæðingar flokksins hafi viljað túlka úrslitin.

Hins vegar sé nokkuð meiri spenna um hvað gerist í forvali flokksins í Suðvesturkjördæmi, sem hefst á morgun og stendur 15.-17. apríl. Þar stefni tveir öflugir menn á efsta sætið, þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður. Vegna kynjareglna muni annar þeirra falla í 3. sæti listans og því tæplega komast inn á þing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert