Ein stærsta snekkja heims sigldi inn Eyjafjörð í kvöld. Snekkjan, sem nefnist A, er í eigu rússneska viðskiptajöfursins Andrey Melnitsénkó og verður í firðinum í jafnvel nokkrar vikur, að því er fram kemur í umfjöllun Akureyri.net.
„Snekkjan er 142 metra löng og möstrin eru um 100 metrar á hæð, sem er ástæða þess að hún siglir ekki inn á Pollinn; möstrin geta truflað flugumferð,“ segir í umfjöllun vefjarins.
Melnitsénkó er samkvæmt viðskiptaritinu Forbes talinn 95. ríkasti maður heims, og í sjöunda sæti yfir auðugustu Rússana.
Samkvæmt heimildum Akureyri.net er hann væntanlegur um borð í snekkjuna.