Gunnari Jóhanni Gunnarssyni hefur verið sleppt úr haldi þar til ljóst verður hvort mál hans verði tekið fyrir í Hæstarétti. Hann hefur verið dæmdur fyrir morðið á hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni.
Gunnar hlaut 13 ára fangelsisdóm fyrir að ráða hálfbróður sínum bana með haglaskoti að morgni 27. apríl 2019 en áfrýjunardómstóll í Noregi mildaði dóminn í fimm ár snemma í mars síðastliðnum.
Verjandi Gunnars fór fram á að honum yrði sleppt úr haldi þar til málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti en lögreglan fór fram á að hann yrði áfram í haldi, sem héraðsdómstóll féllst á. Þeim úrskurði var áfrýjað eins og dóminum og hefur áfrýjunardómstólll fallist á kröfu verjanda Gunnars.
Verjendur Gunnars sögðu fyrir rétti að Gunnar hefði ekki ætlað að ráða bróður sínum bana heldur hafi skot hlaupið af haglabyssu, sem Gunnar hafði meðferðis, í læri Gísla Þórs þegar þeir tókust á um vopnið.
Aftur á móti hélt saksóknari því fram að um viljaverk hefði verið að ræða en Gunnar hafði ítrekað hótað því að drepa hálfbróður sinn. Hann fór fram á að refsing héraðsdóms yrði staðfest.