„Höldum okkar striki“ hvað AstraZeneca varðar

AFP

Ekki er útlit fyrir að notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-19 verði hætt hér á landi líkt og í Danmörku, í það minnsta ekki í bráð. Danir tóku í dag ákvörðun um að hætta notkun bóluefnisins alfarið vegna mögulegra tengsla þess við afar sjaldgæfa blóðtappa. 

„Við höldum okkar striki þangað til annað kemur í ljós. Þessi ákvörðun Dana hefur ekki áhrif á ákvörðun Íslendinga,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, um málið. 

Hlé var gert á notkun bóluefnisins hér á landi, líkt og víða erlendis, í marsmánuði á meðan möguleg tengsl á milli bóluefnisins og blóðtappa voru skoðuð. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Lyfjastofnun Evrópu hafa síðan þá lýst því yfir að bóluefnið sé öruggt. Hér á landi var bóluefnið tekið í notkun fyrir fólk sem er 70 ára og eldra og er útlit fyrir að þeir sem hafa náð 65 ára aldri muni einnig fá bólusetningu með bóluefninu. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áður sagt að mun meiri líkur séu á blóðtappamyndun hjá þeim sem fá Covid-19 en þeim sem fá bóluefni AstraZeneca. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert