Hraðalækkun samþykkt og fyrstu 40-göturnar í sumar

Hámarkshraði á stærstum hluta gatna í Reykjavík verður 40 og …
Hámarkshraði á stærstum hluta gatna í Reykjavík verður 40 og 30 km/klst eftir breytinguna. mbl.is/Árni Sæberg

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag nýja hámarkshraðaáætlun, en með henni verða nær allar götur í Reykjavík sem eru í eigu borgarinnar með 40 km hámarkshraða eða lægri. Engin gata verður lengur með 60 km hámarkshraða og götur með 50 km hámarkshraða verða teljandi á fingrum beggja handa, en engin slík gata verður vestan megin við Elliðaár.

Framkvæmdir strax á þessu ári

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður ráðsins, segir í samtali við mbl.is að með samþykktinni sé þetta skref stigið, þó að borgarráð eigi eftir að samþykkja málið líka formlega. Greint var frá því að málið væri framundan í Morgunblaðinu í gær. Hún segir heildarframkvæmdina við breytinguna geta tekið þrjú upp í fjögur ár, en að byrjað verði strax í ár og að fyrstu nýju 40 göturnar verði tilbúnar í sumar.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar. mbl.is

Segir Sigurborg að með nýja planinu verði yfir 400 ný 30 km hlið sett upp, 700 nýjar yfirborðsmerkingar með nýjum hámarkshraða settar fram og götur þrengdar. Þá verði gróðri bætt í göturými og hjólastígar lagðir samsíða götu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum verða flestar 50 götur færðar niður í 40, en í mörgum tilfellum verður hámarkshraðinn færður niður í 30. Á Suðurlandsbraut er 60 km hámarkshraði í dag, en hann verður færður niður í 40 km hraða.

Hámarkshraði á götum í Reykjavík og fjöldi slysa á árunum …
Hámarkshraði á götum í Reykjavík og fjöldi slysa á árunum 2014-2018. kort/Reykjavík
Hámarkshraði á götum í Reykjavík eftir breytinguna og fjöldi slysa …
Hámarkshraði á götum í Reykjavík eftir breytinguna og fjöldi slysa á árunum 2014-2018 yfirfært á miðað við breyttan hámarkshraða. kort/Reykjavík

„Það var ekki talin þörf að lækka hámarkshraða við allar götur“

Spurð út í hvað hafi ákvarðað hvaða götur yrðu 30, hverjar 40 og hvað hafi ráðið að nokkrar götur verði áfram 50 götur segir Sigurborg að unnið hafi verið út frá faglegu mati á því hversu margir eru að ganga og hjóla á þessum götum. „Það var ekki talin þörf að lækka hámarkshraða við allar götur,“ segir hún. Þá tekur hún fram að planið nái ekki til gatna sem séu í eigu Vegagerðarinnar og Faxaflóahafna, en það eru meðal annars stofnbrautir eins og Miklabraut og Kringlumýrarbraut.

Í síðustu viku var greint frá því að ný rannsókn sýndi fram á að mikil tengsl væru milli aukinnar svifryksmengunar og hærri hámarkshraða. Var niðurstaða Þrast­ar Þor­steins­son­ar, pró­fess­ors í um­hverf­is- og auðlinda­fræði við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, að hægt væri að draga mætti úr svifryksmengun um allt að 40% með að draga úr hámarkshraða úr 50 km niður í 30 km.

Auki öryggi og verði hluti af breyttum ferðavenjum fólks 

Sigurborg segir að þetta nýja plan sé bæði hugsað til að auka öryggi og minnka mengun. „Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli. Þegar við lækkun hámarkshraða erum við að bæta öryggi þeirra sem ganga og hjóla og svo styður þetta við að fólk breyti ferðavenjum sínum,“ segir hún og bætir við að með lækkuðum hámarkshraða sé verið að auka öryggistilfinningu gangandi og hjólandi. „Það mun hafa áhrif til lengri tíma,“ segir Sigurborg.

Spurð út í áhrif þessa plans á umferðahraða og umferðatafir segir Sigurborg að í sínum huga sé alveg skýrt að ekki sé hægt að réttlæta styttri umferðatíma með því að fórna heilsu íbúa borgarinnar. Segir hún að þó að þessi gagnrýni heyrist oft, þá hafi í lang flestum tilfellum komið ábendingar frá íbúum hverfa um að lækka hámarkshraðann. „Það er meiri sátt um þetta en heyrist oft í umræðunni,“ segir hún.

Hámarkshraði á stofnbrautum í eigu Vegagerðarinnar verður áfram óbreyttur.
Hámarkshraði á stofnbrautum í eigu Vegagerðarinnar verður áfram óbreyttur. mbl.is/Sigurður Bogi

Vísar Sigurborg einnig til þess að þetta séu svipuð rök og voru notuð þegar 30 km hámarkshraði var fyrst kynntur til sögunnar og þegar öryggisbeltisskylda var sett. „Það myndi ekki nokkur maður berjast fyrir að hækka hámarkshraða eða hætta að nota öryggisbelti,“ segir hún.

„Í grunninn er þetta einfalt. Fólk á rétt á að búa í öruggu umhverfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka