Metfjöldi var bólusettur í gær

Bólusetning í Laugardalshöll í síðustu viku.
Bólusetning í Laugardalshöll í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls voru 5.600 manns bólusettir á höfuðborgarsvæðinu í gær sem er mesti fjöldinn á einum degi til þessa. „Við erum alltaf að bæta metið,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fólkið var bólusett með bóluefni frá Pfizer. Engar bólusetningar verða á höfuðborgarsvæðinu í dag en eftir helgi halda Pfizer-bólusetningar áfram.

Fólki sem er fætt 1950 og 1951 verður boðið að mæta í bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu með bóluefni AstraZeneca á morgun. Þessi aldurshópur var boðaður í bólusetningu einu sinni í síðustu viku en þeir sem ekki komu þá fá núna annað tækifæri til þess að mæta.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir á upplýsingafundi almannavarna.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir á upplýsingafundi almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Kerfið tengt við símafyrirtæki og heilsuveru

Ábending barst mbl.is um að einhverjir hafi ekki fengið boð um bólusetningu í þessari viku vegna þess að símanúmerin þeirra hafi verið vitlaust skráð hjá heilsugæslunni. Ragnheiður Ósk kannast ekki við að hafa fengið kvartanir út af þessu. Hún segir kerfið þeirra vera tengt við öll símafyrirtækin. Öll símanúmer séu skráð á ákveðna kennitölu sem fái SMS-boðun. Stundum kemur það fyrir, segir hún að, annar aðili í fjölskyldu er skráður fyrir báðum símunum. Í smáskilaboðunum kemur þó alltaf fram fornafn þess sem á rétt á bólusetningunni. 

Ragnheiður nefnir að sums staðar sé enginn skráður með síma. Þetta hafi verið algengast hjá elsta aldurshópnum, 90 ára og eldri. Þess vegna hefur verið auglýst á þann veg að þótt fólk hafi ekki fengið strikamerkið skuli það samt mæta í bólusetningu.

Reyna að nýta öll möguleg númer

Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis, segir að öll möguleg símanúmer séu nýtt til að ná í fólk, bæði frá vinnuveitendum, ja.is, farsímafyrirtækjum og heilsuveru. „Við reynum að nýta öll númer sem við mögulega komumst í,“ segir Ingi Steinar.

Ef alls staðar er um sama númerið að ræða sendir kerfið ein smáskilaboð en ef númerin eru fleiri en eitt sendir kerfið skilaboð á öll númerin. Hann segir dæmi um að fólk hafi fengið sjö SMS með boðun í bólusetningu. Þar getur spilað inn í að foreldri er skráð á síma barnanna sinna. Fornafn þess sem á rétt á bólusetningunni fylgir alltaf með í skilaboðunum til að enginn vafi sé til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert