Sala á ferðavögnum er margföld miðað við sama tíma í fyrra. Á vef Samgöngustofu má sjá að það sem af er þessu ári hafa 90 hjólhýsi verið nýskráð. Á sama tíma í fyrra, frá janúar til mars, hafði til samanburðar 21 hjólhýsi verið skráð.
Arnar Barðdal framkvæmdastjóri Víkurverks segir í samtali við ViðskiptaMoggann í dag að salan á þessu ári sé farin fram úr því síðasta, sem var metár. „Það er rosalega mikið að gera og meira en í fyrra. Það lítur út fyrir að allir nýir ferðavagnar verði uppseldir í maí-júní,“ segir Arnar. „Við höfum mestar áhyggjur af því að verða með tóma búð í sumar.“
Hann segir að vandinn sé sá að ferðavagnar séu að verða uppseldir alls staðar í Evrópu. „Það eru allir að ferðast innanlands vegna veirufaraldursins. Þetta hefur aldrei verið svona á þeim þrjátíu árum sem ég hef verið í þessum bransa, að það verði uppselt hjá framleiðendum og ekki hægt að anna eftirspurn.“