Yfir helmingur Íslandsferða bókaður á sólarhring

Crystal Endeavor mun sigla undan ströndum Íslands.
Crystal Endeavor mun sigla undan ströndum Íslands. Ljósmynd/Crystal Cruises

Fyrirtækið Crystal Cruises, sem gerir út skemmtiferðaskip víða um heim, hefur tilkynnt að búið sé að bóka yfir helming farrýma í ferðum þess um Ísland síðar á þessu ári, aðeins sólarhring eftir að opnað var fyrir bókanir.

Eins og Morgunblaðið greindi frá fyrr í mánuðinum mun skip Crystal Cruises, sem nefnist Crystal Endeavour, sigla um landið og koma við í nokkrum höfnum á landsbyggðinni. 

Farþeg­arn­ir koma með flugi í gegn­um Leifs­stöð og fara í sýna­töku. Sýna­taka verður síðan einnig gerð um borð í skip­inu.

Hrífandi strandlengjur og hugguleg þorp

Jack Anderson, framkvæmdastjóri Crystal Cruises, segir fyrirtækið himinlifandi með þessar viðtökur.

Crystal Endeavour sé til marks um algjörlega nýjan kafla í sögu fyrirtækisins, en skipið mun vera heimsins stærsta sérsmíðaða snekkjan í heimskautaklassa, að því er segir í umfjöllun iðnaðarvefjarins Cruise Industry News

Ferðirnar eiga að hefjast 17. júlí með brottför frá Reykjavík.

Í tilkynningu fyrirtækisins eru stóru orðin ekki spöruð. Ferðirnar eiga þannig að varpa ljósi á „hrífandi strandlengjur og friðlönd dýralífs, risavaxna jökla og óteljandi fossa, hugguleg þorp og töfrandi arfleifð íslenskra þorpa og eyja“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert