„Bitnar á þeim sem síst skyldi“

Orkuhúsið. Framkvæmdastjórinn telur ótækt að SÍ geti ekki náð samningum …
Orkuhúsið. Framkvæmdastjórinn telur ótækt að SÍ geti ekki náð samningum við lækna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög undarleg aðgerð og virðist ekki gerð í samráði við neinn,“ segir Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuhússins í Urðarhvarfi.

Dagný furðar sig á áformum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem Morgunblaðið hefur greint frá. Ráðherra kynnti á dögunum breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Felur breytingin meðal annars í sér að þeir læknar sem rukka aukakostnað samkvæmt gjaldskrá muni ekki njóta kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Eins og komið hefur fram í blaðinu telja læknar að hæpin lagastoð sé fyrir áformuðum breytingum.

Undarlegt að stoppa allt kerfið

„Það er verið að stilla okkur upp við vegg,“ segir Dagný sem lýsir Orkuhúsinu sem rótgrónu fyrirtæki; það hefur verið rekið í 23 ár og hefur um 50 starfsmenn í vinnu. „Hér er framkvæmdur stærstur hluti allra bæklunaraðgerða á landinu. Við fáum 20 þúsund heimsóknir ár hvert og gerum fimm þúsund aðgerðir. Þessi starfsemi er háð því að samið sé við lækna og það er ótækt að menn geti ekki einfaldlega sest niður og náð samningum. Mér finnst undarlegt að stoppa eigi allt kerfið sem gengið hefur eins og smurð vél í ár og áratugi,“ segir hún.

Framkvæmdastjórinn bætir við að allt verði gert til að sjúklingar fái þá þjónustu sem þeir þurfi á að halda. Ekki sé mikil sanngirni í því að ráðherra ætli að stöðva greiðslur til lækna þótt læknastöðin rukki gjöld til að mæta launahækkunum og gengisbreytingum síðustu ára.

„Þetta bitnar á þeim sem síst skyldi. Sjúklingar hafa vissulega sinn tryggingarétt en að ætla að gera þeim erfitt fyrir að sækja hann með þessum hætti sem boðað hefur verið er mjög skrítið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert