Ferðatími muni aukast um 12%

40 kílómetra hámarkshraði er meðal annars á Hofsvallagötu.
40 kílómetra hámarkshraði er meðal annars á Hofsvallagötu. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstaða útreikninga miðað við forsendur sem lágu að baki þegar ákveðið var að lækka hámarkshraða víða í höfuðborginni er að breyting á hámarkshraða mun hafa í för með sér 12% aukningu á ferðatíma bílaumferðar innan Reykjavíkur. 

Þetta kemur fram í greinargerð sem lögð fram fram varðandi hámarkshraða á borgargötum. Ekki er tekið tillit til tafa á gatnamótum en þær upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi.

Skipu­lags- og sam­gönguráð Reykja­vík­ur­borg­ar samþykkti í gær nýja há­marks­hraðaáætl­un, en með henni verða nær all­ar göt­ur í Reykja­vík sem eru í eigu borg­ar­inn­ar með 40 km há­marks­hraða eða lægri.

Eng­in gata á vegum borgarinnar verður leng­ur með 60 km há­marks­hraða og göt­ur með 50 km há­marks­hraða verða telj­andi á fingr­um beggja handa, en eng­in slík gata verður vest­an meg­in við Elliðaár.

Ekki réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda

Í meðfylgjandi töflu má sjá reiknaðan aksturstíma að teknu tilliti til hámarkshraða. Þar sést meðal annars að bílar munu eyða jafnlöngum tíma og aka jafnmarga kílómetra á götum þar sem hámarkshraði er 70, 80 og 90 km, enda er engum slíkum götum breytt.

Tafla/Reykjavíkurborg

Hins vegar munu eftir breytingarnar verða eknir færri kílómetrar og minni tíma eytt á götum þar sem hámarkshraði er 60 km, enda verið að lækka hámarkshraðann í nokkrum slíkum götum.

Breytingin er mest á götum þar sem hámarkshraði er 40 km. Fyrir breytingar óku bílar þar 47.259 km og eyddu þar 1.181 klukkustund. Eftir breytingar verða þetta 463.554 km og 11.589 klukkustundir, enda verður hámarkshraði 40 km á mun fleiri stöðum eftir breytingarnar.

„Vert er að benda á að samkvæmt núllsýn sem hefur verið samþykkt sem hluti af umferðaröryggisáætlun borgarinnar þá er hún skilgreind þannig að enginn eigi að slasast alvarlega eða látast í umferðinni. Samkvæmt þessari hugmyndafræði er ekki talið réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda fyrir aðra hagsmuni samfélagsins, eins og til dæmis vegna minni tafa,“ kemur fram í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert