Ekki er vitað til þess að innköllun hægðalyfsins Husk vegna salmonellumengunar nái til Íslands, en varan sem um ræðir, Husk í hylkjum, er seld hér á landi.
Samkvæmt upplýsingum sem Matvælastofnun hefur veitt mbl.is hafa engar vörur úr þeim framleiðslulotum sem innköllunin nær til verið seldar á Íslandi svo vitað sé, en það er enn til rannsóknar hjá stofnuninni.
Sóttvarnastofnun Danmerkur (Statens Serums Institut) vakti athygli á því að þrír væru látnir, 19 á spítala og 33 með einkenni vegna salmonellusmits er tengt er við náttúrulyfið.
MAST upplýsir að stofnuninni hafi borist tilkynning vegna málsins í gegnum samevrópskt viðvörunarkerfi og er vitað til þess að lotur sem innköllunin nær til hafi ratað til Noregs, Svíþjóðar og Búlgaríu, auk Danmerkur.