Koma fólki úr bílum með góðu eða illu

Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru ekki lausnir, þetta eru þrengingar,“ segir Eyþór Arnalds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík, um væntanlegar hraðalækkanir í borginni. Skipu­lags- og sam­gönguráð Reykja­vík­ur­borg­ar samþykkti í gær nýja há­marks­hraðaáætl­un, en með henni verða nær all­ar göt­ur í Reykja­vík sem eru í eigu borg­ar­inn­ar með 40 km há­marks­hraða eða lægri.

Eng­in gata verður leng­ur með 60 km há­marks­hraða og göt­ur með 50 km há­marks­hraða verða telj­andi á fingr­um beggja handa, en eng­in slík gata verður vest­an meg­in við Elliðaár.

„Hindranir í lykilumferðaræðar“

„Þarna er verið að setja einhverja milljarða í að þrengja að umferð. Bæði er verið að lækka hraða og einnig er áætlað að setja hindranir í lykilumferðaræðar,“ segir Eyþór.

Hann segir að umferðaræðar eins og Grensásvegur, Bústaðavegur og Suðurlandsbraut séu götur sem fólk þurfi á að halda til að komast greiðlega á milli hverfa. Samþykkt gærdagsins muni bara valda töfum og þrýsta umferð inn í hverfin.

Eyþór segir að betra hefði verið að innleiða snjalllausnir, bæta gangbrautir og ljósastýringu. Hann bendir enn fremur á að Strætó hafi í sinni umsögn bókað að þetta muni ekki ganga upp fyrir fyrirtækið að óbreyttu:

„Strætó mun ekki halda áætlun miðað við þetta. Þá þarf að bæta við vögnum, eða fækka ferðum og það viljum við ekki. Þetta mun valda vandamálum. Þetta er rökstutt með því að það muni bæta öryggi og draga úr svifryki en þegar málið er skoðað liggur eitthvað annað að baki,“ segir Eyþór og bætir við, spurður, að meirihlutinn vilji koma fólki úr bílunum:

„Það á að fá fólk til að hætta að nota bíla með góðu eða illu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert