Lavrov sækir mögulega Ísland heim

Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Stefnt er að því að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sitji ráðherrafund norðurskautsráðsins á Íslandi 19. til 20. maí. Þetta sagði Maria.V. Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, á blaðamannafundi í dag.

Sagði hún að fundir ráðsins hafi að undanförnu farið fram með fjarfundaforritum vegna veirufaraldurs en að þessu sinni sé unnið að því að finna leiðir til þess að Lavrov mæti í eigin persónu og leiði sendinefnd Rússa vegna fundarins. Rússland tekur við formennsku í norðurskautsráðinu á þessu ári, en Íslend hefur gegnt formennsku ráðsins frá 2019.

Fréttablaðið sagði fyrst frá boðaðri komu Lavrovs til landsins.

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra tekur við formennsku norðurskautsráðsins af Timo …
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra tekur við formennsku norðurskautsráðsins af Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, í maí 2019. Ljósmynd/Arctic Council

Um er að ræða merkan fund þar sem átta ríki eiga aðild að norðurskautsráðinu; Bandaríkin, Kanada, Ísland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Rússland. Má búast við því að utanríkisráðherrar þessara ríkja muni einnig sitja fundinn, þótt ekki sé vitað hvort þeir mæti í eigin persónu.

Ekki er heldur vitað með ráðherra áheyrnarríkjanna Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans, Hollands, Kína, Indlands, Kóreu, Póllands, Singapúr, Spánar, Sviss og Bretlands.

Norðurslóðir hafa á undanförnum árum orðið sífellt stærri hluti af samkeppni stórveldanna og hafa Bandaríkin, Kína og Rússland öll reynt að auka áhrif sín á svæðinu. Til að mynda hafa Rússar viljað koma upp ræðismannsskrifstofu á Grænlandi og Bandaríkin veitt landinu sérstakan fjárhagsstyrk.

Þá hafa Bandaríkin einnig kynnt fyrir íslenskum stjórnvöldum hugmyndir um uppbyggingu aðstöðu sem gæti þjónustað flota NATÓ-ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert