Læknanemar munu nú öðlast almennt og ótakmarkað lækningaleyfi að loknu sex ára læknanámi við Háskóla Íslands. Starfsnám sem hingað til hefur farið fram á kandídatsári og verið hluti af grunnnámi lækna verður nú hluti af sérnámi þeirra.
Þetta er gert til samræmis við sambærilegar breytingar á námi lækna víða erlendis með það að markmiði að greiða aðgengi lækna að sérnámi. Reglugerðarbreyting sem þetta varðar öðlast þegar gildi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerðarbreytinguna.
„Sambærilegt fyrirkomulag og hér er verið að innleiða hefur verið tekið upp víða annars staðar, þar sem gerð er krafa um 12 mánaða starfsnám sem hluta af sérnámi. Þetta hefur skapað vanda hjá þeim sem lokið hafa cand.med.-prófi frá Háskóla Íslands og kandidatsári, því kandidatsárið hefur ekki verið viðurkennt sem liður í sérnámi þeirra í viðkomandi ríki. Norðmenn innleiddu þetta fyrirkomulag nýverið og í júlí næstkomandi mun Svíþjóð einnig bætast í hóp þeirra landa sem hafa starfsþjálfun lækna sem hluta af sérnámi þeirra í stað grunnnáms áður,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að reglugerðin feli í sér breytingu á reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi og byggist breytingareglugerðin á vinnu starfshóps sem ráðherra fól að endurskoða núverandi tilhögun þessara mála.
„Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag sérnámsgrunns hefjist í sumar og að þau sem ljúka cand.med.-prófi á þessu ári fái þá lækningaleyfi. Þau sem hyggja á sérnám munu þá hefja það með því að taka sérnámsgrunn sem felur í sér 12 mánaða starfsþjálfun. Í bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar er bil milli eldra fyrirkomulags og þess nýja brúað þannig að kandídatsár teljist ígildi sérnámsgrunns. Þau sem eru á kandidatsári núna að afloknu cand.med.-prófi frá HÍ geta nú sótt um lækningaleyfi.
Vinnuhópur heilbrigðisráðherra sem vann að undirbúningi reglugerðarbreytingarinnar leitaði í starfi sínu til sérfræðinga embættis landlæknis og formanns nefndar sem skipuleggur kandidatsár læknanema. Drög að reglugerðinni voru jafnframt birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og kynnt sérstaklega á fundum með forstöðufólki helstu heilbrigðisstofnana, læknadeild Háskóla Íslands og landlækni.“