Órói hefur farið stigvaxandi í óróamælum við Fagradalsfjall frá því á miðnætti aðfaranótt miðvikudags. Líkur eru á því að rekja megi óróann sem mældist í dag til veðursins á svæðinu en vindhviður námu allt að 41 m/s á svæðinu í dag.
Mælingar sýna að órói er nú kominn í svipaðar hæðir og hann hefur verið þegar ný gosop hafa myndast á sprungunni yfir kvikuganginum.
Spurður hvort von sé á slíku segir Einar Hjörleifsson, jarðvísindamaður hjá Veðurstofunni, að fylgst sé grannt með mælunum.
Lægðir sem leggjast yfir landið hafa reglulega áhrif á óróamælana en úrkoman hefur aukist í allan dag og er því líklegt að órói mælist vegna þess.
Þó er erfitt að meta nákvæmlega hvað er á seyði á svæðinu þar sem skyggnið er svo lítið að veðurfræðingar eiga bágt með að greina þróun á svæðinu í gegnum vefmyndavélar.
Þegar léttir til munu sérfræðingar Veðurstofu taka stöðuna á gosinu, að sögn Einars. Margir umhverfisþættir hafa áhrif á mælingar, svo sem veður og vindur, sem getur orsakað að jörðin titri og gefa óróamælar þá frá sér boð.