Einstaklingur sem kýs að halda nafnleynd styrkti SÁÁ um tíu milljónir vegna ákvörðunar samtakanna þess efnis að slíta samstarfi sínu við Íslandsspil, en samstarfinu var formlega slitið þann 8. apríl.
Frá þessu greina samtökin en í orðsendingu frá styrktaraðilanum segir:
„Starf SÁÁ hefur lengst af verið fjármagnað með sjálfsaflafé og stuðningi félagsmanna, almennings og áhugamanna um áfengis- og vímuefnavanda. Þar sem spilafíkn er ein tegund fíknar hefur SÁÁ nú tekið þá samfélagslegu og siðferðislegu ákvörðun að taka ekki lengur við fjármunum sem fengnir eru með hagnaði af spilakössum.
Af því leiðir tekjumissir fyrir samtökin, tekjumissir sem ég vil koma til móts við með því að heiðra minningu konunnar minnar og eigin edrúmennsku í rúm fjörtíu ár. Fullur þakklætis fyrir það líf sem starf SÁÁ hefur leitt af sér mér og öðrum til góðs.“
SÁÁ hefur átt hlut í Íslandsspilum yfir 30 ára skeið og hefur eignarhluturinn verið ein helsta tekjulind samtakanna til þessa. Er greint frá þessu á vef SÁÁ og jafnframt sagt frá því að valgreiðslur til samtakanna hafi aukist um 60%, sem ber þess merki að samfélagið sýni ákvörðuninni stuðning.
Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, fagnar því að samtökin geti nú tekið þátt í umræðu um spilafíkn eingöngu út frá skjólstæðingum. Samtökin séu enn fremur betur til þess fallin nú að geta aðstoðað þá við að ná bata.