Kristófer Tómasson sagði í gær lausu starfi sínu sem sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þetta kom fram í bókun hans á sveitarstjórnarfundi.
Hann segir að ástæðurnar séu fleiri en ein og nefnir að breytingar sem hann hafi um nokkurt skeið bent á til að bæta afkomu sveitarfélagsins hafi ekki náð fram að ganga. Hann segir rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins hafa haft í för með sér verulegt tap annað árið í röð og bætir við að hann taki það mjög nærri sér að staðreyndin um afkomuna sé með þessum hætti.
Hann kveðst ekki firra sig ábyrgð en telur að niðurstaðan hefði orðið betri ef samstaða hefði verið um að fara þær leiðir sem hann hefur lagt til.
Fram kemur í bókun Ingvars Hjálmarssonar og Önnu Sigríðar Valdimarsdóttur að þau harmi þá stöðu sem sé komin upp í sveitarfélaginu. „Lýsum við mikilli ánægju með það samstarf sem við höfum átt við Kristófer. Óskum við eftir því að þ[ví] ráðningarferli sem þarf að eiga sér stað verði frestað til næsta fundar svo sveitarstjórn fá[i] smá tíma til að meðtaka þá stöðu sem upp er komin og vinna úr málum með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi,“ segir í bókuninni.