„Það er sætt að segja frá því að margir sem hafa komið í morgun óska okkur til hamingju með daginn, eða segja „þetta er hátíðisdagur“. Það eru allir brosandi út að eyrum,“ segir Linda Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvarinnar Hress í Hafnarfirði.
Hún segir flesta á sama stigi núna í ræktinni, og nú sé notið í botn að ná fyrra formi.
„Fyrstu tímarnir voru klukkan sex í morgun. Um leið og opnað var fyrir skráningu bókaðist upp í fyrstu tímana á fimm mínútum. Allir tímar hafa síðan verið fullir í morgun eins og má með takmörkunum,“ segir Linda.
Linda segir fólk hafa tekið vel á því í morgun og svitnað sérstaklega mikið. „Þó að margir hafi verið duglegir að fara út að labba og svona, þá er ekkert sem jafnast á við það að komast í okkar venjubundnu hreyfingu.“
Þá segir Linda að opnun eftir fyrirskipaðar lokanir krefjist mikillar skipulagsvinnu. Til dæmis nefnir Linda að mörg námskeið hafi verið við það að klárast þegar skella þurfti í lás fyrir þremur vikum. Starfsfólk hafi þurft að setja sig í samband við þá sem voru á námskeiðum og bjóða þeim í síðasta tímann.
„Þetta eru mjög sérstakar aðstæður en við lítum á þær sem sögulegar líka,“ segir Linda.