Fyrirtækin Carbfix og Climeworks leggja til að við breytingar á raforkulögum verði heimilt að fella niður flutningsgjald af raforku í þeim tilvikum sem hægt er að tengja starfsemi beint við virkjanir, eins og til dæmis Hellisheiðarvirkjun þar sem þessi fyrirtæki starfa eða undirbúa starfsemi.
Koma þessar tillögur fram í umsögnun fyrirtækjanna við stjórnarfrumvarp um breytingar á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets sem nú er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd Alþingis.
Umsagnarfrestur er liðinn og bárust sextán erindi. Í mörgum þeirra eru lagðar til breytingar, meðal annars um að krafa verði aukin um hagræðingu í flutningi og dreifingu raforku.
Carbfix ohf. vinnur að hreinsun á útblæstri Hellisheiðarvirkjunar og förgun á koldíoxíði og brennisteinsvetni með dælingu niður í jörðina þar sem efnin breytast í berg. Fyrirtækið er að undirbúa hliðstæða starfsemi við Nesjavallavirkjun, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.