Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fengið erindi um ákvörðun Reykjavíkurborgar um áætlun um lækkun hámarkshraða á götum borgarinnar.
Sú breyting varð með nýjum umferðarlögum árið 2019 að veghaldari, í þessu tilviki Reykjavíkurborg, ákveður hámarkshraða að höfðu samráði við lögregluna, og auglýsir breytinguna. Áður ákvað lögreglustjóri hraðann og auglýsti.
Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í fyrradag nýja áætlun um hámarkshraða á götum borgarinnar. Með henni verða nær allar götur með 40 km hámarkshraða eða lægri.
Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan veiti umsögn um áform borgarinnar þegar áform borgarinnar og rök fyrir þeim berast. Ekki sé hægt að tjá sig um málið fyrr.