„Ég á ekki pening í Kína og er ekkert að fara þangað,“ segir Jónas Haraldsson, ellilífeyrisþegi sem lenti á svörtum lista stjórnvalda í Kína í gær.
Eftir yfirlýsingu kínverska sendiráðsins á Íslandi er ljóst að þvingunaraðgerðirnar sem Jónas sætir eru svar kínverskra yfirvalda við tilvonandi þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum gagnvart kínverskum lögaðilum og einstaklingum sem tengjast mannréttindabrotum í Xinjiang-héraði á úígúra-múslimum.
„Þetta hefur engin áhrif á mig. Ég svo sem vissi að Kínverjarnir væru ekkert hressir með skrifin mín enda oft stundum svolítið djúpt í árinni og svona. Þannig að það kom mér ekkert á óvart að ég væri ekki á vinsældalistanum. En svo er þetta bara aðferð sem þeir virðast nota úti um allt,“ segir Jónas.
Hann kveðst steinhissa á því að hans skrif hafi flækst inn í ákveðna milliríkjadeilu. Hann hefur bæði skrifað um frágang kínverska sendiráðsins á fyrra húsnæði sendiráðsins, kínverska ferðamenn og tengsl Covid-19 og Kína. Hann taldi þess vegna að vera hans á svarta listanum væri persónuleg.
„Þetta eru bara einhver stöðluð aðferð. Ef Ísland hefði ekki farið út í að mótmæla meðferð þeirra á Úígúrum hefðu þeir líklega ekki beitt sér svona gegn mér,“ segir Jónas.
Hann segir að ekki hafi staðið til að stunda viðskipti við kínverska banka.
„Það að fara á svartan lista, það er alltaf sérstakt, hjá fjölmennasta ríki í heiminum. Að ég sé að trufla þá eitthvað. Ég er bara ellilífeyrisþegi, ég var ekkert að fara að leggja lífeyrinn minn inn í kínverska banka hvort eð er.“