Hraun gæti runnið suður úr Geldingadölum

Frá gosinu í Geldingadölum.
Frá gosinu í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrauntaumar tóku að renna austur úr Geldingadölum í dag. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur ekki ólíklegt að hraun eigi einnig eftir að renna suður úr dalnum. 

„Þetta eru tímamót í gosinu. Þetta nær þarna að komast yfir haftið. Þessir nýju gígar eru orsökin fyrir þessu, hraunið sem kemur frá þeim. Þetta beinist austur og út í skarðið og það er greinilegt að þessir gígar hafa nægilegt afl til þess að keyra hraunið yfir þennan þröskuld sem var þarna í austurskarðinu,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is. 

Þorvaldur segir ómögulegt að spá um hvaða leið hraunið eigi eftir að fara. 

„Þetta er bara á leiðinni núna niður brekkurnar, en það er spurning hvort þessi hrauntaumur, ef hann heldur áfram og lengist verulega í viðbót, hvort hann velur leiðina niður í Meradali eða hvort hann velur leiðina niður í suðurátt. Það er ekki hægt að segja af eða á um það í augnablikinu.“

Þorvaldur telur þó ólíklegt að hrauntaumurinn eigi eftir að komast langt þar sem framleiðnin í gosinu sé lítil. 

„Flæðið er þannig að mér finnst ólíklegt að þetta fari mjög langt, framleiðnin er svo lítil í gosinu. Þessi hrauntaumur sem er að fara út um austurskarðið, ég efa það að hann nái í Meradali eða komist í raun út úr þessum fjallgarði í kringum Fagradalsfjall. Hrauninu sem fór niður í Meradali var hjálpað mikið af landslaginu, það fór beint í hraunrás og niður bratta hlíð,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann telur að kjörlengd hrauntauma frá einstaka gígum geti í mesta lagið verið um kílómetri.

„Ég hugsa að kjörlengd hrauntauma frá einstaka gígum sem fer örfáa rúmmetra á sekúndu í hverju tilfelli, ég hugsa að þeir hafi ekki drifkraft til að fara lengra en hálfan til einn kílómetra, kjörlengdin gæti kannski verið um einn kílómetri. Það tapast svo mikill hiti úr hraunkvikunni við flutninginn,“ segir Þorvaldur og bætir við að það tæki einhverja daga fyrir hraunið sem rennur nú austur í Geldingadölum að ná slíkri lengd.“

Nær að fylgjast með úr öruggri fjarlægð 

Þorvaldur telur ekki ólíklegt að hraun eigi eftir að flæða úr Geldingadölum annars staðar. 

„Það getur líka runnið suður úr Geldingadölum. Þeir gígar sem eru í Geldingadölum eru enn þá að dæla hraunkviku inn í það hraun sem fyllti dalinn í raun og veru, og þeir eru enn að ýta hrauninu suður á við. Ef þetta heldur áfram finnst mér líklegt að þetta fari líka út um suðurskarðið,“ segir Þorvaldur. 

Þá ítrekar Þorvaldur að hætta sé enn á svæðinu þó svo að flæðið sé hægt og framleiðnin lítil.

Undanhlaup geti farið á allt að 10 til 20 kílómetra hraða á klukkustund.

„Þú hleypur ekki svo auðveldlega undan svoleiðis,“ segir Þorvaldur. „Það er miklu nær að horfa á þetta úr öruggri fjarlægð og njóta lífsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert