Karlmaður var sakfelldur fyrir meiri háttar skattalagabrot og peningaþvætti fyrir Landsrétti í dag. Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem honum var gert að greiða rúmlega 12 milljóna króna sekt innan fjögurra vikna.
Maðurinn, Gunnar Torfason, var sakfelldur fyrir að hafa annars vegar staðið skil á efnislega röngu skattframtali fyrir einkahlutafélagið FO gjaldárið 2010, með því að eignfæra ranglega í bókhaldi félagsins greiðslur á sölureikningum vegna framkvæmda við ótengda fasteign, sem varanlegar endurbætur tveggja tilgreindra fasteigna í eigu félagsins, og jafnframt gjaldfæra óheimilar fyrningar af þessum offærðu eignfærslum í bókhaldi og skattframtali félagsins.
Þá var Gunnar sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir einkahlutafélagið FÁ gjaldárin 2011 og 2012, með því að gjaldfæra óheimilar fyrningar af hinum offærðu eignum í skattframtali félagsins fyrra árið og vantelja söluhagnað í skattframtölum bæði árin vegna sölu á fasteignum.
Einnig var Gunnar sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn lögum um bókhald og 262. grein hegningarlaga með því að hafa með tilgreindum hætti rangfært bókhald og ársreikning FO ehf. fyrir rekstrarárið 2009 og einnig fyrir að færa í bókhaldið tilgreinda sölureikninga sem hafði verið breytt. Loks var Gunnar sakfelldur fyrir peningaþvætti.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ásetningur til brotanna hefði verið einbeittur og brotin staðið yfir í þrjú ár. Á hinn bóginn var litið til þess að Gunnar hefði játað brot sín og að skattskuldir félaganna hefðu verið greiddar að fullu auk þess sem litið var til þess langa tíma sem rannsókn málsins hafði tekið.