Sæferðir leita eftir viðbótarframlagi

Breiðafjarðarferjan Baldur.
Breiðafjarðarferjan Baldur. mbl.is/Sigurður Bogi

Í sumaráætlun Baldurs er gert ráð fyrir að siglt verði einu sinni á dag á milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey á báðum leiðum.

Að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra Sæferða, er sá fyrirvari við þessa áætlun að viðbótarframlag fáist frá ríkinu.

Gunnlaugur segir að í fyrra hafi Sæferðir fengið um 13 milljónir á mánuði yfir sumarmánuðina þrjá úr neyðarsjóði á vegum stjórnvalda, alls um 39 milljónir, til að tryggja þessar mikilvægu samgöngur á tímum kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt fjárlögum fá Sæferðir 270 milljónir á ári vegna siglinga yfir Breiðafjörð og gildir samningurinn frá byrjun september til maíloka ár hvert en enginn samningur er um siglingar Baldurs yfir sumartímann. Í eðlilegu árferði eins og 2019 og árin þar á undan hafi verið farnar tvær ferðir á dag yfir sumartímann.

Með kórónuveirufaraldrinum hafi aðstæður í rekstrinum gerbreyst og erlendir ferðamenn nánast horfið úr farþegahópnum. Fyrirtækið hafi því þurft á þessu framlagi að halda í fyrra til að geta sinnt þessum siglingum, en hafi ekki nýtt önnur úrræði stjórnvalda sem í boði hafi verið vegna faraldursins, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert