Icelandair hefur í varúðarskyni tekið eina Boeing 737 MAX-vél úr rekstri á meðan skoðun fer fram og úrbætur gerðar samkvæmt tilmælum Boeing og bandarískra flugmálayfirvalda. Boeing tilkynnti í síðustu viku um mögulegt tæknilegt atriði sem tengdist rafkerfi í tilteknum vélum, sem í kjölfarið voru teknar tímabundið úr rekstri hjá nokkrum flugfélögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.
Tilkynningin er svohljóðandi:
„Eins og fram hefur komið tilkynnti Boeing í síðustu viku um mögulegt tæknilegt atriði sem tengist rafkerfi í tilteknum Boeing 737 MAX-vélum, sem í kjölfarið voru teknar tímabundið úr rekstri hjá nokkrum flugfélögum á meðan lausn væri fundin á málinu. Fram kom að þetta ætti ekki við um MAX-vélar Icelandair. Í kjölfar nánari greiningar hjá Boeing hefur Icelandair nú verið tilkynnt að sambærilegt mál hafi áhrif á eina MAX-vél í flota Icelandair.
Icelandair hefur því í varúðarskyni tekið tiltekna vél úr rekstri á meðan skoðun fer fram og úrbætur gerðar samkvæmt tilmælum Boeing og bandarískra flugmálayfirvalda. Rétt er að taka fram að málið tengist ekki hinu svokallaða MCAS-kerfi vélarinnar og er því ekki tengt kyrrsetningu vélanna sem hefur verið aflétt.“