„Það er löngu kominn tími til að okurlánarar hætti að níðast á viðkvæmu og fátæku fólki og skýr krafa að fjármálaeftirlitið fari að einbeita sér að glæpsamlegum athöfnum þessara fyrirtækja,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í vikulegum pistli sínum til félagsmanna.
Hún beinir sjónum að nýju innheimtufyrirtæki, BPO Innheimtu ehf., sem auglýsir með áberandi hætti um þessar mundir.
BPO Innheimta keypti nýlega skuldasöfn smálánafyrirtækjanna Kredia, Hraðpeninga, Smálána, 1909 og Múla og sendi út tilkynningu þess efnis að skuldurum þessara fyrirtækja byðist að greiða þær upp með niðurfellingu, án dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.
Drífa segir fyrirtækið hafa sent út greiðsluseðla í heimabanka fólks með eindaga sama dag og kröfurnar voru sendar út.
„Neytendasamtökin hafa bent á að dæmi séu um að kröfur hafi hækkað mikið, jafnvel tvöfaldast og að þvert á gefin fyrirheit sé ekki eingöngu send krafa fyrir höfuðstóli lána, heldur einnig lántökukostnaði, innheimtukostnaði og vöxtum. Einhverjar kröfur eru þegar greiddar og ganga í endurnýjun lífdaga,“ segir í pistli Drífu þar sem hún tekur undir kröfur Neytendasamtakanna um aðgerðir gegn innheimtufyrirtækjum.