Veirusmitin tvö sem greindust utan sóttkvíar í gær eru rakin til matvælafyrirtækis sem hefur bækistöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Tugir hafa nú þegar verið sendir í sóttkví og á annað hundrað verða skimaðir. Þetta staðfestir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, við mbl.is.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði við RÚV að ekki þyrfti að óttast framleiðsluvörur matvælafyrirtækisins. Hann sagði jafnframt að þótt aðalbækistöðvar fyrirtækisins væru á höfuðborgarsvæðinu hefði það starfsemi víðar um landið.