Fleiri smit á leikskólanum Jörfa

Staðfestum kórónuveirusmitum hefur fjölgað í dag í leikskólanum Jörfa, að sögn Sigrúnar Björnsdóttur upplýsingafulltrúa hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Hún segir þó ekki mögulegt að gefa upp hversu mörg smitin eru. 

Eins og mbl.is greindi frá í dag voru 22 börn og 13 starfsmenn leikskólans send í sóttkví eft­ir að starfsmaður greind­ist með Covid-19 á föstu­dag. Smitaði starfsmaðurinn er talsvert veikur.

RÚV greindi fyrst frá.

Erfitt að segja eitthvað afgerandi um fjöldann

„Það hafa verið staðfest fleiri smit á meðal starfsmanna í leikskólanum Jörfa og það er fyrirséð að það verði ekki þjónusta í leikskólanum á mánudag. Það er enn rakning og skimun í gangi og verður líklega líka á morgun,“ segir Sigrún. 

Hún veit ekki til þess að smit hafi komið upp hjá börnum í leikskólanum. 

Spurð hversu mörg smitin séu alls segir Sigrún:

„Rakningarteymið er að störfum, það er voðalega erfitt að segja eitthvað afgerandi á meðan verið er að vinna í málum sem eru nýkomin upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert