Tveir starfsmenn Íslensks sjávarfangs hafa greinst með Covid-19. Tuttugu starfsmenn hafa verið settir í sóttkví og allir starfsmenn fyrirtækisins í Kópavogi munu fara í skimun, alls um 100 manns.
Þetta staðfestir Rúnar Björgvinsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins við mbl.is. Fréttablaðið greindi fyrst frá á laugardagskvöld.
Rúnar segist vænta þess að niðurstöður úr sýnatöku liggi fyrir í dag eða kvöld. Þangað til kjósi hann að tjá sig ekki frekar um málið.
„Ég vil hins vegar nota tækifærið og þakka sóttvarnayfirvöldum fyrir frábært starf og rakningarteymi ríkislögreglustjóra fyrir skjót og fagleg vinnubrögð,“ segir Rúnar.